Hafðu samband

Listdansskóli Íslands 
Engjateig 1, 105 RVK 
 S: 588 9188 
listdans@listdans.is

Opnunartími skrifstofu
virka daga frá 9-16 

SENDA FYRIRSPURN 

 

 

Námslýsingar framhaldsdeild

Hér að neðan má lesa námslýsingar framhaldsdeildar - bæði fyrir klassískan listdans og nútímalistdans


Smellið HÉRNA til að nálgast yfirlit yfir námseiningakerfið (áfanganúmer og einingafjölda)


Klassískur listdans í framhaldsdeild Listdansskóla Íslands – námslýsingar

Í Listdansskóla Íslands er nám í klassískum dansi byggt á Vaganova kerfinu sem þróað var af Agrippinu Vaganovu, Kostrovitskayu og fleiri kennurum hjá Vaganova Academic Choreographic School í Pétursborg á 20 öld.
Í náminu er kennd balletttækni með sérstaka áherslu á placement, alignment, samhæfingu, hreyfigæðum (movement quality ) tónvísi og listrænni tjáningu. Haft er að leiðarljósi að mennta nemendur til að verða tæknilega færir og skapandi, þeir hafi gagnrýna hugsun og góða heildarsýn yfir klassískan listdans.
Í klassísku áföngunum er raðað í hópa eftir getu og eru þrepin 5: KLA A-B-C-D-E, KLA-703 er valáfangi. Einnig eru í boði valáfangarnir TÁS C-D-E ( táskór) Pas de deux ( tvídans) og sérstakir strákatímar ef strákar eru í námi og klassískt Repertoire sem er verkefnavinna tengd klassískum verkefnum á nemendasýningum og í listdanssögu.

KLA –A
Kynning á undirstöðuatriðum klassískrar balletttækni með áherslu á rétta stöðu og beitingu líkamans, tilfinningu fyrir dansáttum og rými, uppbyggingu styrks, liðleika, jafnvægis og mýktar. Unnið er að samspili hreyfingar og tónlistar og lærð eru helstu heiti og hugtök ballettsins. Grunnur lagður að öguðum og vönduðum vinnubrögðum. Þessir áfangar eru ætlaðir byrjendum með litla sem enga undirstöðu í ballett. Nemendur sem eru í KLA A eru á nútímalistdansbraut.

KLA-B
Í þessum áföngum er lögð áhersla á aukna færni nemenda í balletttækni. Byggður er upp meiri styrkur, sérstaklega í fótum og fótleggjum og unnið að flæði og mýkt í handleggjum og baki. Ná þarf góðum tökum á litlum hoppum, úthaldi og góðri hæð í stórum hoppum. Unnið er að samhæfingu hreyfinga auk líkamlegrar tónskynjunar. Hugtök og heiti ballettsins kennd. Nemendur byrja að temja sér ábyrg og sjálfstæð vinnubrögð og þroska listræna tjáningu. Nemendur í KLA-B eru á nútímalistdansbraut.

KLA-C
Æfingar verða flóknari og gerðar í hraðara tempói. Endurtekning efnis er mjög mikilvæg á þessu tímabili til að auka stöðugleika,stjórn og skilning nemenda á námsefninu. Áframhaldandi þróun mismunandi stökkkrafts í stærri hoppum. Nemendum er gerð grein fyrir innihaldi og karakter tónlistar og hve áhrif hennar er mikilvæg fyrir túlkun dansins. Hugtök og heiti ballettsins kennd. Áhersla er lögð á eflingu sjálfstæðis og persónuleika nemenda og meira unnið að listrænni tjáningu i allri hreyfingu ásamt sterkari balletttækni. Þessir áfangar henta yfirleitt þeim sem útskrifast úr grunnskóla Listdansskóla Íslands og eru á 1.ári í framhaldsdeild.

KLA-D
Öll grundvallarhreyfing er færð í endanlegan búning hins klassíska forms og unnið er að enn sterkari balletttækni. Allt tempó verður hraðara en áður og Adagio verður enn flóknara í uppbyggingu. Við bætast stór hopp og snúningar úr einni stórri stöðu í aðra stóra stöðu. Vinna í hringjum verður enn meiri og við bætast stærri og flóknari hopp. Hugtök og heiti ballettsins kennd. Þróun á persónulegum túlkunarhæfileikum nemenda heldur áfram.

KLA-E
Á þessu stigi eru allar grundvallarhreyfingar, öll spor sem lærð hafa verið á námstímanum sett saman í danssamsetningar og námsefnið unnið með því lokatakmarki að ná sem mestri fullkomnun í balletttækni. Unnið er áfram í músíkalskri túlkun í mismunandi samsetningum. Hraði er enn aukinn miðað við fyrri áfanga og mismunandi stílform skoðuð. Nemendur þurfa að hafa náð valdi á öllum hugtökum og heitum ballettsins. Í þessum áföngum þarf áfram að ýta af öllum krafti undir sérstaka hæfileika og tæknilega færni hvers og eins nemanda svo hann fái að blómstra og nái fullum líkamlegum þroska. Og síðast en ekki síst er áfram lögð áhersla á hið skapandi afl nemandans og hann nái að dansa af listfengi og “ virtuosity”. Í þessum áföngum eru nemendur undirbúnir fyrir atvinnumennsku eða háskólanám.

KLA-703 valáfangi
Áframhaldandi undirbúningur fyrir atvinnumennsku eða háskólanám. Erfiðleikastig þyngist og repertoire vinna eykst og dýpkar. Áfram unnið að tæknlegri hæfni og listfengi hvers og eins.

TÁS-C + REP + Pas de deux valáfangi 
101-Styrktaræfingar á táskóm, mismunandi dansverk kynnt, grunnæfingar í Pas de deux. 
201-samsettar æfingar, fleiri atriði úr klassísku rep.

TÁS-D + REP+ Pas de deux valáfangi
301- flæði í hreyfingum. Tilfinning fyrir rými, flóknara efni í Rep og Pas de deux.
401- fjölbreyttari tónlist, styrktaræfingar, jafnvægi, flæði. Kynnast ólíkum dansstílum og tónlist. Flóknara efni í Pas de deux.

TÁS-E + REP + Pas de deux valáfangi
501 –samhæfing, liðleiki, jafnvægi, listræn tjáning. Krefjandi sólóar úr Rep og Pas de deux
601-Undirbúningur undir atvinnumennsku eða Háskólanám.

TÁS C-D-E lýsingar eru beint úr aðalnámsskrá.

 

 

Nútímalistdans í framhaldsdeild Listdansskóla Íslands – námslýsingar
Nútímadans er listgrein sem er í stöðugri þróun og er grunnurinn að honum því nám í mismunandi danstækni þróuð af tuttugustu-aldar meisturum eins og Bartanieff, Cunningham, Graham, Hawkins, Horton, Limón, Skinner og Humphreys. Áhersla er á bæði póstmóderníska tækni sem og samtímaþjálfun í “release-tækni”, líkamsmeðvitund og spuna. Að auki er boðið uppá danssmíði/kóreografíu á þremur stigum (grunn-, mið-, lengra komnir).
Nútímadansbrautin hefur að leiðarljósi að þjálfa nemendur sem eru tæknilega færir, hafa gagnrýna hugsun og eru skapandi.

Graham-tækni
Þegar Martha Graham greindi aðferð við öndun og stjórn á kveikju hreyfinga sem hún kallaði Contraction and release (samdráttur og losun), þá byggði hún á sinni eigin túlkun á meginreglu Delsartes um spennu og slökun. Grundvallaratriði í Graham tækni eru “contraction and release”, mótstaða, færsla á þunga og “spirals” (gormlaga form/hreyfingar). Nemendur læra að hreyfa sig stórt og af krafti, stækka líkamann, orkuna og fókus svo þau magnist og fylli út í rýmið.

Horton tækni
Tæknin leggur áherslu á líkamann sem heild, líffræðilega nálgun á dans sem innifelur liðleika, styrk, samhæfingu og meðvitund um líkama og rými til þess að virkja óheft frelsi leikrænnar tjáningar. Horton þróaði sína eigin sýn á dans sem felldi inn fjölbreytta þætti meðal annars þjóðdansa indjána, japanskar handahreyfingar, einangraðar hreyfingar efri búks frá Java og Bali - sérstaklega augn-, höfuð- og handahreyfingar. Horton notaði einnig þætti úr dansi karabískra afríkumanna.

Limón tækni
Tæknin leggur áherslu á hinn náttúrulega takt falls og endurheimt og hvernig samspil þyngdar og þyngdarleysis veitir dönsurum lífræna leið til hreyfingar sem auðvelt er að heimfæra á hina ýmsu dansstíla. Fall og endurheimt, þyngdarafl, röð, andstaða, frestun, taktur. (Fall and recover, Gravity, Succession, Opposition, Supsension, Rhythm)

Release-tækni
Release tækni felst í margs konar líkamlegum venjum með áherslu á skilvirkni hreyfinga. Lögð er áhersla á öndun, stöðu beinagrindar, mótaða notkun liðamóta, litla vöðvaspennu og notkun þyngdarafls og skriðþunga til að auðvelda hreyfingar. Release tækni birtist sem hluti líkamsfrumulegs mynsturs þar sem huglæg innri upplifun líkamans er metin ásamt hlutlægri greiningu á því sem sjá má utanfrá. Frumkvöðlar eru Eric Hawkins, Doris Humphreys og Elizabeth Skinner ásamt mörgum fleiri.

NTD A
Kynning á grunnorðaforða dansins með æfingum fyrir rétta líkamsstöðu, styrk og liðleika auk spora sem ferðast þvert yfir gólfið.

NTD B
Viðbætur við grunnorðaforðann og hærra erfiðleikastig með fókus á skilning nemandans og hann nái tökum á grunntækninni. Nemendur fá kennslu í grundvallaratriðum líkamsstöðu, ryþmískri fraseringu og sviðsframkomu.

NTD C
Þetta námsskeið veitir nemendum tækifæri til að bæta við tæknilega getu. Áhersla er áfram lögð á grundvallaratriði líkamsstöðu, líkamlega tengingu og sviðsframkomu/útgeislun auk þess sem nemendur fá frekari áskorun með flóknari samsetningum hreyfinga/æfinga og fleiri viðbótum við dansorðaforðann.

NDT D
Lokaáfanginn í orðaforða nútímadansins inniheldur lengri samsetningar hreyfinga. Nemendur framkvæma æfingar og hreyfisamsetningar sem eru teknískt erfiðar með tilliti til styrks, jafnvægis, þyngdar, lipurðar og lína. Námsskeiðið veitir lengra komnum dansnemendum tækifæri til að þróa bæði danstæknina og sviðsframkomu. Lögð er áhersla á gæði hreyfinga, tjáningu einstaklingsins og tæknilega getu.

Spuni 1
Nemendur kanna örvun, byggingu og framkvæmd spunnina hreyfinga. Áhersla lögð á atriði eins og rými, form líkamans, hreyfingu, tíma, gæði, form verksins og meðvitund. Til að byrja með gefur kennari upp byggingu/form fyrir spunann en nemendur taka svo seinna yfir stjórnina og nær hápunkti í spunasýningu. Námsskeiðið er fyrstu skrefin inní heim spunans sem og kynning á danssmíði. Nemendur þróa sköpunargleði, hvatvísi, sjálfstraust í túlkun, einbeitingu og fjölbreytt hreyfisvið og ýmsa möguleika.

Framhaldsspuni
Áframhaldandi könnun og dýpri greining á vinnutólum spunans og danssmíði; Líkami, Rými, Tími og Orka. Leiðangur að spuna og snerti-spuna sem sviðslistaformi. Leiðbeinandi og nemendur vinna saman að grind fyrir spunasýningar. Námsskeiðinu er ætlað að dýpka reynslu nemendans af spunaforminu og meðal annars gera honum kleift að hanna og stýra spunaæfingum. Nemendur þróa sína einstaklings tjáningu og sköpun hreyfinga í gegnum ýmsar æfingar og form spunans.

Snertispuni
Kynning og könnun á spuna með einum eða fleiri dansfélögum, með notkun breytilegs snertiflatar milli dansara og að bera þungann af dansfélaga. Tækniatriði eins og að rúlla, “supsension” (halda stöðu/hreyfingu lengur lifandi), falla og rísa saman eru könnuð með líkamlegum æfingum sem nota þyngd, kontra-balans og eftirgjöf.

Grunn-danssmíði
Undir handleiðslu kennara kanna nemendur grunnnotkun á rými, tíma og orku við danssmíðar. Nemendur setja saman sólódansstúdíur í hverri viku. Hreyfiupplifun í gegnum myndmál og hönnun þróa skapandi hugsun dansarans. Í gegnum þetta skapandi sólódansferli kynnast nemendur ferlinu sem fylgir því að semja dans.

Mið-danssmíði
Nemendur kynnast því að hreyfa nokkra dansara um rými með flóknari notkun á danssmíðitólunum rými, tími og orka. Þetta námsskeið getur falið í sér að semja dans fyrir myndband (video).

Vísindi danshreyfinga
Beinagrindin stúderuð og hvernig hún tengist danshreyfingum. Grunn reglur hreyfifræðinnar, styrktarþjálfun fyrir dansara ásamt að læra að þekkja meiðsli og fyrirbyggja þau.

Repertoire
Þetta námsskeið er sett upp til þess að kynna fyrir nemendum það ferli að læra og sýna tilbúin dansverk. Þau læra og sýna verk merkra danshöfunda í dansheiminum.

Kóreografía
Þetta námsskeið veitir nemendum bæði klassískrar og nútímadansbrautar tækifæri til þess að stunda þá iðn að semja dans. Nemendur þjálfa þekkingu sína á hinum kóreografísku elementum (tími, rúm, orka) með því að nota þau við að semja sín eigin verk.
 

Frjálsir tímar án eininga. Tímar sem nemendur eru hvattir til að taka: 
Pilates
Jósef Pilates (1880-1967) var lengi að þróa æfingakerfi fyrir allan líkamann og lagði áherslu á jafnvægið á milli styrks og sveigjanleika. Æfingarnar eru unnar frá hinu svokallaða orkuhúsi (Powerhouse) sem er magi, kviðvöðvar, mjóbak og rassvöðvar. Meðvitund um vel þjálfað orkuhús leyfir öðrum hlutum líkamans að hreyfast frjálst og eðlilega. Fyrir utan að Pilates hannaði röð af ákveðnum hreyfingum eða æfingum sem gerðar eru á dýnu þá bjó hann til sérstakt æfingakerfi fyrir sértilbúin tæki sem hafa hæfilega mótstöðu fyrir alla vöðvavinnu. Dýnuæfingar Pilates teygja, styrkja og lengja vöðva líkamans. Þessar æfingar eru grunnur Pilates kerfisns. Nemendur uppgötva orkuhúsið sitt og hvaða gildi það hefur á alhliða heilbrigði. Að hafa sterkt orkuhús er öryggi fyrir dansarann. Ekki síður góður grundvöllur góðrar heilsu.
Pilates kerfið hefur sýnt og sannað, í meira en 80 ár, að það er öruggt og árangursríkt æfingakerfi fyrir líkamann og þá sér í lagi þegar það er kennt og iðkað á réttan hátt. Pilatesæfingar hjálpa nemendum að þróa djúpan vöðva styrk sem endist vel til mikillar vinnu í dansnáminu.
Pilates kerfi mun alla jafna styrkjast í 10 mikilvægum þáttum er snerta sál,huga og líkama, þ.e: 1. Stjórn og samhæfing hreyfinga 2. Meðvitund um miðju líkamans 3. Betri einbeiting 4. Nákvæmni æfinga sem miða að jafnvægi líkamans 5. Betri öndun 6. Bætt blóðrás 7. Stöðugleiki og liðleiki liða 8. Mýkt og styrkur vöðva 9. Aukin orka 10. Aukið sjálfstraust

Body Conditioning
Styrktarþjálfun sem hefur það að meginmarkmiði að bæta vöðvastyrk nemenda. Kennari reynir einnig að koma auga á hugsanlega veikleika nemenda og vinna í að styrkja þau svæði sem þarfnast styrkingar og liðka þau svæði/vöðvahópa sem þurfa liðleika. Notast er við reyndar aðferðir innan einkaþjálfunar og ávalt leitast við að ná upp bruna í vöðvum svo þeir endurbyggi sig sterkari.

Viðburða dagatal

  • No upcoming events available


Ljósmyndasíða Listdansskólans

  
 
Finndu okkur á facebook

Vefstjórn